22/05/2024
Fiskirækt, rannsóknir, verndun og veiði.
Hvað er verið að gera í efri hluta Eystri Rangár fyrir ofan Tungufoss, sem nefnd hefur verið Laxá á Keldum, til að halda henni aðskilinni frá vöruheitinu Eystri Rangá, einni gjöfulustu laxveiði á landsins?
Eystri Rangá, fyrir neðan Tungufoss er sendin og köld á vegna kaldavermsla sem í hana renna frá Keldnalæk og Teitsvötnum, sem er helmingur vatnsmagns árinnar við Tungufoss.
Vegna þessara aðstæðna er náttúrulegt klak laxfiska árinnar ekki mikið og helsta klakið er að finna neðan fossins í neðri hluta Fiskár, sem rennur í Eystri Rangá.
Frá árinu 2021 hefur hópur manna stundað rannsóknir með fiskifræðingum í ánni frá Tungufossi upp að þeim stað er Valá rennur út í Eystri Rangá (Laxá á Keldum).
Það sem rannsakað hefur verið eru síritamælingar á hitastigi, botngerð, leiðni, efnisinnihald árvatnsins ásamt lífríki árinnar. Allar mælingar benda til þess að áin geti orðið að náttúrulegu klaksvæði þar sem hitastig, botngerð og ætisframboð laxfiska er ákjósanlegt. Einnig hafa verið gerðar rannsóknir á hvernig seiði og frjóvguð hrogn gera sig í ánni.
Frá því 2021 hefur í samvinnu við veiðifélag Eystri Rangár, mörgum tugum af seiðum verið sleppt sem koma úr laxastofni Eystri Rangár, einnig hafa verið grafin nokkur hundruð frjóvguð hrogn af sama stofni. Einnig hafa tugum af hrygnum og hængum sem komin voru nálægt hrygningu verið sleppt ofarlega í ánni til náttúrulegrar hrygningar.
Sumarið 2023 voru framkvæmdar ýtarlegar rafveiðar til að rannsaka lífríki árinnar og árangur rannsóknarstarfs af sleppingum síðustu ára mæld.
Árangur rafveiðanna var árangursríkur og fannst mikið magn af laxaseiðum sem klakist höfðu út í ánni og seiðum sem sleppt hafði verið. Seiðin voru vel haldin og magafull sem sýnir að fæðuframboð laxaseiðanna eru góð í ánni.
Að sögn fiskifræðinga er einstaklega vel staðið að þessu rannsóknarstarfi og mikið magn af hrognum, seiðum og laxfisk sleppt í ána. Þetta væri ekki hægt nema með framsýni og stuðningi veiðifélags Eystri Rangár með því að styðja rannsóknarverkefnið svo dyggilega með þeim fiskum sem lagðir eru til á hverju ári til stuðnings verkefnisins.
Hvers vegna er verið að þessu?
Villti Norður Atlantshafslaxinn er í útrýmingarhættu og á brattan að sækja vegna breytinga í hafinu, ánum og fiskeldi í fjörðum landsins. Ekki er mikið eftir af svæðum til að auka viðgangi laxfiska. Eystri Rangá er einungis fiskgeng fyrstu 20 km frá sjó þegar hún mætir ófiskgengnum Tungufossi. Fyrir ofan Tungufoss eru um 40 km að upptökum í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli, en 20 km af þessum 40 km eru með mjög góð skilyrði til náttúrulegs klaks og uppvaxtar skilyrði laxfiska.
Nú þegar rannsóknir hafa sýnt að seiði lifa vel í ánni, hrogn klekjast vel út og fæðuframboð gott þá er næsta verkefni að opna leiðina með fiskvegi fram hjá Tungufossi. Það er vel mögulegt að gera látlausan fiskveg til hliðar við fossinn og verður því ekki hróflað við fossinum sjálfum. Allar framkvæmdir verða gerðar með sem minnstu raski og á eins náttúrulegan hátt og kostur er.
Ef verkefnið tekst þá er þetta veruleg viðbót við búsvæði laxfiska og verulegt skref til að auka við stofn sem er í útrýmingarhættu. Samhliða því að styrkja Norður Atlantshafslaxinn þá er verið að búa til mikilfenglega laxveiðiá sem skila mun tekjum til landeigenda, nærumhverfisins og gjaldeyristekna til þjóðarbúsins.
Frekari upplýsingar um verkefnið https://laxakeldum.is/