18/03/2024
Deili þessu fyrir fésbókarvini sem búa erlendis
Virkni í eldgosinu hefur verið nokkuð stöðug síðan seinnipartinn í gær. Það gýs á tveimur svæðum á gossprungunni í nokkrum gosopum, en svo virðist sem slökknað hafi í nyrstu gosopunum. Virkustu gígarnir eru sunnarlega á gossprungunni sem opnaðist á laugardagskvöld og frá þeim er hraunrennsli til suðurs í átt að Suðurstrandarvegi. Í morgun voru um 330 m frá hraunjaðrinum að veginum og hafði jaðarinn færst lítið áfram m.v. í gærkvöldi. Við athuganir á svæðinu í gærkvöldi virtist ekki vera mikil virkni eða hreyfing í hrauntungunni sem fór yfir Grindavíkurveg á aðfararnótt sunnudags.
Flatarmál hraunsins hefur verið metið 5,85 ferkílómetrar út frá gervitunglamynd sem var tekin kl. 14:56 í gær, 17. mars. Sjá á meðfylgjandi korti. Í þessu mati á flatarmáli er meiri óvissa en mælingum sem byggðar eru á ljósmyndum úr flugi. Á kortinu hér sjást útlínur hraunsins teiknaðar eftir tveimur gervitunglamyndum frá ICEYE. Fyrri myndin var tekin 17. mars kl: 01:55 (appelsínugulur litur), sem er um fimm og hálfri klukkustund eftir að eldgosið hófst. Seinni myndin var tekin kl: 14:56 17. mars og útlínur hraunsins, eins og það var þá, sýnt með rauðum lit. Fjólubláir litir sýna hraunbreiður frá fyrri gosum.
Ítarlegri umfjöllun um eldgosið má finna hér: https://www.vedur.is/um-vi/frettir/jardhraeringar-grindavik