20/05/2024
Skíðagönguferð í Mosa í Böggvisstaðadal 13. apr. 2024.
Ferðafélag Akureyrar bauð upp á skíðagönguferð fram í Mosa, skála f.f. Svarfdæla í Böggvisstaðadal 13. apr. 2024. Þátttakendur voru 8 talsins auk fararstjóra sem var Kristján Eldjárn Hjartarson.
Þegar mætt var á byrjunarreit var frekar þungbúið og skyggni fremur lítið, hægur andvari að norðan og frost í -2°, alskýjað og þokuslæða á fjöllum. Gott gönguveður og batnaði eftir því sem á daginn leið. Þegar komið var fram að heiði skein upp með sól, sem entist út ferðina.
Lagt upp frá Brekkuseli í Böggvisstaðafjalli um kl. 8:40 og notfærðum okkur lyftuna upp fyrstu brekkurnar. Frá lyftunni var skíðað sem leið liggur upp í Böggvisstaðadal og áfram inn dalinn, fram hjá Dalakofanum sem er áningaskáli og kúrir undir Grímubrekkum. Þegar komið var fram undir fyrstu brekkur var farið vestur yfir ána en þeim megin heitir dalurinn Upsadalur. Áfram var haldið upp heiðarbrekkurnar í áfangastað sem er skáli Ferðafélags Svarfdæla, Mosi. Þangað var komið kl. 12:05. Sest var inn og nesti snætt undir sögum. Eftir um klukkutíma stopp var svo haldið niður sömu slóð til baka og komið að bílum kl 14:55, eftir 6 tíma og 18 mínútna ferð, 15,5 km. göngu og 670 m hækkun.