24/12/2022
Berlínur óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Árið 2022 var annasamt hjá Berlínum eftir ansi róleg tvö ár þar á undan. Íslendingar voru greinilega orðnir ferðaþyrstir eftir ferðatakmarkanir faraldursins og sjaldan, eða aldrei, höfum við tekið á móti jafn mörgum gestum. Bæði voru stórir hópar sem komu í árshátíðarferðir og endurmenntunarferðir sem við sáum um að skipuleggja og síðan þeir minni sem við leiðsögðum um borgina okkar Berlín.
Á árinu opnuðu Berlínur útibú í München. Þar heldur Ragnheiður Eyjólfsdóttir um taumana og leiðsegir Íslendingum um þetta höfuðvígi Bæjaralands. Við hlökkum til að kynna Íslendinga fyrir borginni í München og þeirri sögu og menningu sem hún býður upp á. Aldrei að vita nema einhverjir munu koma með okkur í Oktoberfest ferð þangað á næsta ári!
Okkar góði starfsmannahópur fer sístækkandi. Á árinu bættust, auk Ragnheiðar í München, þeir Svavar Daðason og Vilhjálmur Skúli Vilhjálmsson í hópinn.
Á komandi ári bíða alls konar ný og spennandi verkefni. Fyrirséð er að nokkrir hópar munu koma í endurmenntunarferðir til Berlínar. Auk þess erum við í óðaönn að bæta við nýjum og spennandi ferðum í okkar litríku skoðunarferðaflóru.
Hlökkum til að taka á móti enn fleiri Íslendingum á næsta ári,
Jólakveðjur
Margrét Rós, Anna Þorbjörg, Hinrik Þór, Hlín, Kristjana, Jóhannes, Sylvía, Árný Fjóla, Ragnheiður, Svavar og Jóhannes