20/09/2024
Starfamessa var haldin s.l. fimmtudag í íþróttahúsinu á Egilsstöðum þar sem um 400 ungmenni (14-16 ára) af Austurlandi kynntu sér fjölbreytt störf í fjórðungnum. Megin markmiðið var að kynna störf og starfsgreinar í heimabyggð fyrir ungu fólki í landshlutanum, gefa nemendum tækifæri til þess að koma saman og efla samstarf á milli skóla og atvinnulífs.
Vatnajökulsþjóðgarður tók að sjálfsögðu þátt og lagði áherslu á starfið landvörður því það starf er kjarnastarf í þjóðgarðinum og á friðlýstum svæðum. Vissulega eru önnur störf í þjóðgarði eins og bókari, mannvirkjafulltrúi, þjóðgarðsvörður, fræðslufulltrúi, mannauðsstjóri, launafulltrúi, fjármálastjóri og fl. Óhætt er að segja að framtíðin sé björt eftir að hitta svona mörg ungmenni úr fjórðungnum.
Landverðirnir Ásmundur Máni og Martína ásamt Agnesi Brá þjóðgarðsverði tóku á móti unga fólkinu og veittu upplýsingar um störf í þjóðgarði. Þau veittu upplýsingar um t.d. hvaða menntun þau höfðu, hvað væri hæsta fjall Íslands, utan Vatnajökuls og hver megin verkefni landvarða væru? Það er skemmtilegt að segja frá því að landverðir í Vatnajökulsþjóðgarði hafa mjög fjölbreyttan bakgrunn hvað varðar menntun og reynslu, en eiga það sameiginlegt að hafa tekið landvarðanámskeið. Hæsta fjall Íslands utan Vatnajökuls er að sjálfsögðu okkar kæra Snæfell, silfri krýnda Héraðsdís, og útvörður hálendisins í austri (1833 m.y.h.). Helstu verkefni landvarða eru fræðsla, upplýsingagjöf, eftirlit, vöktun, viðhald og fl.
Gestum á starfamessunni var boðið að taka þátt í getraun um þjóðgarðinn og voru verðlaunin gisting í Snæfellsskála. Óliver Snær Stefánsson og Lára Ingvarsdóttir unnu verðlaun í ungmennaflokki og Sigfús Guttormsson vann verðlaun í fullorðinsflokki. Starfsfólk þjóðgarðsins óskar þeim til hamingju og býður þau hjartanlega velkomin í þjóðgarðinn og í gistingu í Snæfellsskála. Snæfell - Vatnajökulsþjóðgarður