26/04/2024
Grýluvöllur í Hveragerði
Á vef RÚV er skemmtileg umfjöllun um flottustu fótboltavelli/vallarstæði landsins og þar er Grýluvöllur í Hveragerði ofarlega á blaði, sjá hér: https://www.ruv.is/frettir/ithrottir/2024-04-26-thetta-eru-flottustu-vellir-islands-410881
Fyrsti leikur sem var spilaður á Grýluvelli var leikur Ungmennafélags Hveragerðis og Ölfuss (UFHÖ) á móti Létti í 4. deild þann 2. júlí 1988. UFHÖ vann leikinn 9-2. Í umfjöllun um þennan fyrsta leik á Grýluvelli birtist svo í dagblaðinu DV fyrirsögnin „Grýta gaus 9 sinnum“ með vísun í hversu mörg mörk UFHÖ skoraði í leiknum. Í fréttinni sagði m.a.: „Hvergerðingar eru á mikilli siglingu og löbbuðu yfir Léttismenn á hinum glæsilega grasvelli sínum við Grýtuhver. […] Grýta hafði varla undan en Hvergerðingar höfðu lofað því að hún gysi við hvert mark!“
Grýluvöllur dregur nafn sitt af goshvernum Grýlu sem er aðeins 70 metra frá vellinum en sá misskilningur hefur lifað lengi að goshverinn heiti „Grýta“ eins og sjá má í fyrirsögn og umfjöllun DV. Á 20. öld gaus Grýla reglulega á tveggja stunda fresti um 10-12 metra háum gosum en jafnframt var hægt að fá hana til að gjósa með því að hella sápu í hverinn. Grýla hefur ekki gosið í um aldarfjórðung.
Grýluvöllur er heimavöllur Hamars í Hveragerði.
Hér má finna stutta umfjöllun um rangnefni goshversins Grýlu: https://www.facebook.com/photo/?fbid=885872318219266&set=a.508984545908047