09/07/2023
Viðtal um reiðvegamál í Bændablaðinu þann 6 júlí:
Hestamennska/reiðvegir:
Það gerir þetta enginn fyrir okkur.
Rætt við Halldór H. Halldórsson um reiðvegamál fyrr og nú, hann er vongóður um aukið fjármagn til reiðvegaframkvæmda.
Reiðvegir eru nauðsynlegir þeim sem vilja geta stundað útreiðar og ferðast um á hestbaki, þeir eru mikilvægur hluti af hestamennskunni segir Halldór H. Halldórsson, hestamaður og nefndarmaður til fjölda ára í reiðvega-, ferða og samgöngunefndum. Eftir rúmlega tveggja áratuga störf í sjálfboðaliðavinnu hefur Halldór nú, að mestu leyti, stigið til hliðar í nefndarstörfum reiðvegamála. Bændablaðið ræddi við Halldór um reiðvegamál fyrr og nú.
Í samantekt Halldórs um “Reiðvegi” er greint frá því að árið 1965 hafi fyrst verið veitt fjármagn frá Alþingi af vegfé til reiðvega. “Hestamenn hafa alla tíð síðan talið að of litlu af opinberu fjármagni sé varið í þann málaflokk sem reiðvegir eru, að undanskilinni gerð “Konungsvegarins” sem gerður var fyrir konungskomuna 1907 og kostaði þá tvenn fjárlög íslenska ríkisins. Gífurlegt álag og aukning umferðar hefur gætt á reiðvegum landsins síðustu áratugi vegna aukinnar hestaferðaþjónustu og ferðalaga hestamanna um landið. Reiðvegirnir fá ekki það viðhald né uppbyggingu sem þeir þurfa, þeir drabbast niður sem m.a. leiðir af sér stór aukna slysahættu.”
Reiðgötur voru fáar
Halldór Helgi Halldórsson fór ungur í sveit, fyrst að Hvammi í Landssveit og svo að Skarðshömrum í Norðurárdal í Borgarfirði þar sem hann kynntist m.a. hrossum og smalamennsku. Hann fann að hrossin áttu vel við sig og áhuginn varð það mikill að áfram fetaði hann menntaveginn og útskrifaðist sem búfræðingur frá Hvanneyri árið 1969. Hestamennska hans í höfuðborginni hófst svo árið 1983 þegar hann fékk úthlutað hesthúsalóð á Kjóavöllum, þá á félagssvæði hestamannafélagsins Andvara í Garðabæ (nú Sprettur) og byggði þar fyrsta hesthúsið við Dreyravelli. Þar stundaði Halldór sína hestamennsku í tæp 40 ár, en veturinn 2021 var síðasti vetur hans með hross á húsi.
“Þá voru reiðgötur hér á Andvarasvæðinu engar, það var bara flóttamannavegurinn svokallaði og svo línuvegurinn hér uppfrá sem var rudd slóð og ekkert efni í hana borið. Hestamönnum blöskraði framganga sveitarfélagsins eftir að hafa úthlutað hér hesthúsalóðum á Kjóavöllum, en svo voru hér engir reiðvegir, við það vorum við hestamenn ekki sáttir. En Andvaramenn nutu velvildar þeirra Vatnsendafeðga, Magnúsar og Þorsteins heitinna. Eftir setu í nefndum og í stjórn Andvara, þá óskaði Elísabet Þóra Þórólfsdóttir, þá verandi formaður reiðveganefndar Andvara, eftir því fá mig með sér í reiðveganefnd Andvara, sem ég gerði árið 1996. Þá var einnig starfandi sameiginleg reiðveganefnd allra hestamannafélaga á suðvesturlandi “Reiðveganefnd í Kjalarnesþingi hinu forna” öðru nafni reiðveganefnd suðvestursvæðis, sem stofnuð var árið 1990.
Reiðveganefndir um land allt
Halldór hefur alla tíð verið liðtækur félagsmaður og sinnt ýmiskonar nefndar- og stjórnarstörfum í sjálfboðaliðavinnu sem sennilega hleypur á þúsundum klukkustunda. Má þar helst nefna setu hans í stjórn og nefndum Andvara, stjórn Landsmóts 2000 ehf., sameiningarnefnd Gusts og Andvara og í fyrstu stjórn sameinaðs félags, auk setu í varastjórn Landsambands hestamannafélaga (LH). Mestur tími Halldórs hefur þó verið varið í reiðvegamál þar sem hann hefur setið í reiðveganefnd Andvara í um 15 ár, þar til félagið sameinaðist Gusti og úr varð hestamannafélagið Sprettur. Þá hélt hann áfram störfum í reiðveganefnd Spretts sem formaður til ársins 2021. Hann var einnig formaður Reiðveganefndar LH 2004 til 2021 – og starfar enn með báðum nefndum eftir þörfum.
“Það tókst það vel til með reiðvegamál hjá reiðveganefnd Kjalarnesþings hins forna að úr varð að koma á laggirnar svæðisbundnum reiðveganefndunum víðsvegar um landið. Það ferli hófst árið 2006 og í dag eru nefndirnar sjö talsins vítt og breitt um landið þær njóta stuðnings hver af annarri.” Halldór, sem var þá formaður reiðveganefndar LH, ferðaðist um landið, fundaði með hestamönnum hvers svæðis fyrir sig og var við stofnun allra reiðveganefndanna. Saman mynda formenn hverrar nefndar fyrir sig reiðveganefnd LH. Sú nefnd ráðstafar reiðvegafé hvers árs, en reiðvegir eru fjármagnaðir með reiðvegafé af vegaáætlun samgönguáætlunar, auk framlaga frá sveitarfélögunum sem standa sig þó misjafnlega vel.
Fjölmörg verkefni og uppákomur
Verkefnin sem Halldór hefur komið að eru fjölmörg. Reiðvegahandbókin er eitt af þessum verkefnum. “Ég kom lítillega að þessu verkefni í upphafi, í kringum árið 2005, en svo höfum við Sæmundur Eiríksson ásamt Haraldi Sigursteinssyni fyrir hönd Vegagerðarinnar endurunnið handbókina, lagfært hana og komið í rafrænt form. Þetta er samstarfsverkefni LH og Vegagerðarinnar og fjallar í stuttu máli um framkvæmd og gerð reiðstíga með það að markmiði að samræma reiðstígagerð á landinu og reyna að tryggja sem kostur er öryggi ríðandi umferðar og annarrar.” Handbókin er veglegt rit sem telur um 65 bls. Þar má m.a. finna upplýsingar um flokkun hestaumferðar, hönnun reiðstíga, flokkun jarðefna, skráningu reiðleiða í kortasjána, reiðgöng og brýr, áningarhólf og merkingar þeirra, lagaákvæði og gátlista svo fátt eitt sé nefnt.
Verkefnin hafa ekki alltaf gengið snuðrulaust fyrir sig og rifjar Halldór upp þá tíma þegar sameiginleg reiðveganefnd suðvestursvæðis var í reiðvegaframkvæmdum í Heiðmörk þegar sveitarfélagið Garðabær stoppaði framkvæmdir vegna hættu á mengun vatnsbóla við Dýjakróka. “Hestamenn boðuðu til fundar með sveitarstjórn og fleiri aðilum. Við höfðum undirbúið okkur vel og sýndum fram á að mengunaráhætta stafaði ekki af hestum í Heiðmörk, könnunarholur milli vatnsbóla og hesthúsasvæðis voru hreinni heldur en í vatnsbólunum sjálfum, þ.e. minna magn nítrata sem voru þó fjarri öllum hættustöðlum. Auk þess bentum við á þá staðreynd að Heiðmörkin öll var ræktuð upp með hrossataði. Í stuttu máli sagt þá fengum við að halda áfram reiðvegagerð.”
15 þúsund kílómetrar af reiðleiðum
Þegar litið er tilbaka á þau verkefni sem Halldór hefur unnið að telur hann Kortasjána vera þeirra stærst. Árið 1997 skipaði samgönguráðherra nefnd um reiðvegamál, nefnd undir stjórn Jóns Rögnvaldssonar þá aðstoðarvegamálastjóri, þar var m.a. lagt til að reiðleiðir skildu flokkaðar og skráðar. Úr varð að Reiðveganefnd LH fékk þetta verkefni í fangið og er það upphafið að Kortasjánni. Reynt var samstarf við Landmælingar Íslands, þar sem hestamenn voru fengnir til að bera með sér gps tæki í hestaferðir. Það gekk lítið því, menn gleymdu að slökkva á tækjunum, batteríin kláruðust og það voru allskonar uppákomur. Árið 2007 sá ég svo frétt í blaðinu frá Loftmyndum og ég hugsaði með mér að þetta væri málið. Í þetta verkefni þurfti ég að finna með mér hestamann sem er væri tæknimenntaður t.d. verkfræðingur og skömmu síðar hnaut ég um Sæmund Eiríksson. Hann var til í að koma með mér í málið, hann hefur reynst okkur hestamönnum betri en enginn. Kortasjáin væri ekki til í þeirri mynd sem hún er í dag ef hans liðsinnis hefði ekki notið við.”
Kortasjánna má finna á heimasíðu LH, www.lhhestar.is eða bein leið sem er www.map.is/lh úr kortasjánni má taka út gps hnit, hlaða inn í eigið tæki og ríða af stað eftir þeim hnitum. Gerður hefur verið samningur við Neyðarlínuna, 112, sem hefur afnot af öllum reiðleiðaferlum úr Kortasjánni, sem er öryggisatriði fyrir ríðandi umferð.
“Ég sé ekki fyrir mér að hestamenn verði án kortasjárinnar í framtíðinni. Umsóknir hestamannafélaga um reiðvegafé berast um kortasjána, þar sem m.a. er hægt að teikna inn reiðleiðir, skila inn greinagerð um það sem búið er að gera. Þar eru allir skálar á landinu, áningarhólf og auðvitað allar þær reiðleiðir sem telja um 14.650 km sem búið er að skrá í dag.” o.fl. o.fl.
15 milljarða þarf til
Drög að nýrri samgönguáætlun, fyrir árin 2024 til 2038, var kynnt 13. júní sl. og er nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda þar sem opið er fyrir athugasemdir til og með 31. júlí. Á haustmánuðum verður endanleg áætlun lögð fram sem er gerð fyrir 15 ár í senn, en skipt niður í þrjú fimm ára tímabil. “Við erum búin að berjast fyrir því lengi að fá aukið fjármagn í reiðvegagerð og ég er vongóður um að hugsanlega verði bætt úr því við afgreiðslu næstu samgönguáætlunar. Innviðaráðherra skipaði starfshóp um stöðu reiðvegamála á Íslandi. Niðurstaða starfshópsins var sú að það þarf 15 milljarða til að koma öllum reiðvegum landsins í gott ástand. Við gerum okkur þó grein fyrir því að það sé langsótt að það fáist. Starfshópurinn leggur til að úthlutun reiðvegafjár verði 1,5 milljarðar á fyrsta tímabili, 1,4 milljarðar á öðru tímabili og 1,45 milljarðar á þriðja tímabili. Samtals um 4,35 milljarðar á 15 ára tímabili. Það eru þá um 300 milljónir til úthlutunar á hverju ári á fyrsta tímablilinu, en er nú um 75 milljónir á ári. Þetta er tillaga nefndarinnar til ráðuneytisins og yrði heilmikil lyftistöng fyrir hestamennskuna.” Mjög svo hófleg tillaga að mínu mati.
Halldór telur að í gegnum tíðina hafi hestamenn verið of undanlátssamir, og í sumum tilvikum hafa breytingar á reiðvegum ekki alltaf verið borin undir hestamenn heldur hafa sveitarfélögin framkvæmt án samráðs. “Reiðvegamál eru stanslaus vinna, þetta eru verkefni sem enginn gerir fyrir okkur – við verðum að gera þetta sjálf.”