01/05/2024
Gluggað í Hesturinn okkar 6. árg 2.tbl
Sumarferð á hestum
Á sumri því, sem nú er að líða, munu líklega hafa verið farnar fleiri langferðir á hestum um landið en nokkru sinni fyrr, eftir að samgöngur hérlendis komust í nútímahorf.
Þetta sumar hefir líka tjaldað því bezta sem íslenzk veðrátta hefir að bjóða. Úrkoma var lítil og langvarandi stillur léttu mönnum ferðir jafnt um byggðir sem öræfi.
Hestamenn í sveitum og bæjum notuðu sumarið óspart til ferðalaga og þjálfuðu gæðinga sína og tömdu fola á þann hátt sem beztur er: í ferðalögum.
Formaður Hestamannafélagsins Freyfaxa, Pétur Jónsson bóndi á Egilsstöðum á Héraði, fór um mitt sumar suður Vatnajökulsveg við fimmtamann og fjölda hesta. Þræddu þeir að nokkuru leið þá er Árni Oddsson er talinn hafa farið forðum, en brugðu lykkju á leið sína af Kili. Fóru þeir norður fyrir Langjökul og komu til byggða í Kalmanstungu.
En þeir sem fóru lengst á hestum í sumar voru þeir Örn Johnson, forstjóri og Þorlákur G. Ottesen og förunautar þeirra, sem voru kona Arnar, frú Margrét, sonur þeirra Ólafur Haukur 13 ára og Pétur Hafstein 16 ára.
Hér í riti þykir hlýða að skýra frá ferð þeirra félaga að nokkuru og fylgjast með þeim austur um land, sunnan Vatnajökuls, um byggðir norð-anlands og síðan suður Sprengisandsleið.
Þeir Örn og Þorlákur hófu ferð sína 3. júlí og fóru austur sveitir upp á Land, en síðan Landmannaleið (Fjallabaksleið nyrðri) að Búlandi í Skaftártungu, en þaðan var farið um Holtsdal og Síðu. Þangað austur voru þeim samferða tvenn hjón úr Reykjavík, þau Inga og Sveinn K. Sveinsson og Ragnheiður og Bergur Magnússon. Allt eru þetta ferðafélagar sem haldið hafa hópinn í fjallaferðum undanfarin sumur, en að þessu sinni áttu þeir Sveinn og Bergur ekki heimangengt í lengri ferð og sneru því til Reykjavíkur. Fóru þau byggðir heim og riðu Kúðafljót undan Melhól í Meðallandi.
Meðan þau voru öll saman voru 43 hestar í hópnum og má nærri geta að kembt hafi af svo föngulegum flokki á hinum skínandi reiðslóðum Landmannaleiðar.
Frá Kirkjubæjarklaustri hélt svo hópur þeirra Þorláks og Arnar á 23 hestum austur um Fljótshverfi yfir Núpsvötn og Skeiðarársand. Þannig hittist á að vatnadrekinn mikli var á leið austur í Öræfi um sama leyti. Flutti hann farangur þeirra félaga yfir Skeiðará og fóru þau einnig með honum, Margrét og drengirnir, en þeir Örn og Þorlákur riðu ána og fengu hana alldjúpa.
Hestarnir voru sundlagðir yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi, en þau ferjuð eins og nú tíðkast þar. Nú mun víst vera hætt með öllu að fara með hesta á jökli þarna eins og áður var vani. Þá var stundum teflt á það tæpasta þegar farið var á svokölluðu undirvarpi rétt yfir útfalli árinnar úr jöklinum.
Í Öræfin komu til móts við þau hornfirskir hestamenn, þeir Ingimar bóndi á Jaðri og Guðmundur Jónsson í Höfn í Hornafirði og konur þeirra, sem fylgdu þeim austur um hinar svipmiklu sveitir sunnan Vatnajökuls.
Frá Hornafirði var farið sem leið liggur um Lón og í Álftafjörð, en þaðan var haldið vestur á bóginn um Geithellnadal og í Víðidal hinn afskekkta. Þar hélt Örn upp á fimmtugsafmæli sitt í glöðum hópi góðra félaga. Á leiðinni norður úr Víðidal hrepptu þau versta veginn á leiðinni í svarta þoku og dimmviðri. Þau komu niður að Glúmsstaðaseli í Norðurdal. Nú var haldið norður á bóginn um Fljótsdalsheiði að Brú á Jökuldal, en þaðan um Möðrudal og í Grímsstaði, yfir Jökulsá á Fjöllum og niður með henni að vestan að Dettifossi, um Hólmatungur í Ásbyrgi og vestur Bláskógaveg í Þeistareyki.
Á Einarsstöðum í Reykjadal var staldrað við um stund hjá fjörugum Þingeyingum á hestamannamóti. Síðar var haldið suður Bárðardal og riðin Sprengisandsleið suður á miðjan Sand, en þaðan haldið vestur Arnarfellsveg yfir Þjórsárkvíslar í Arnarfell um Arnarfellsmúla, Nauthaga og vestur Fjórðungssand og komið að nýju á Sprengisandsleið við Eyfafen. Þá var haldið sem leið liggur um Gljúfurleit, Skúmstungur og Hólaskóg og komið til byggða í Þjórsárdal. Að Gröf í Hrunamannahreppi var komið 1. ágúst.
Þessi ferð tókst öll með ágætum. Ekkert óhapp henti hestana utan þess að einn þeirra heltist í Álftafirði og var hann sendur sjóleiðis heim frá Hornafirði.
Þarna var samstilltur hópur á ferð. Frú Margrét sá um alla matseld og réði fyrir öllu er þau mál varðaði. Hestasveinar voru á léttasta skeiði og snarir í snúningum. Farangur var all mikill eins og nærri má geta og voru 4 hestar undir töskum. Það er því jafnan mikið starf að búa ofan í töskur á hverjum morgni og reisa tjöld að kvöldi. Þau gistu flestar nætur í tjöldum, en voru þó 4 nætur í leitarmanna- og fjallakofum og sváfu eina nótt í hlöðu. Nokkurar nætur nutu þau hvíldar í uppbúnum rúmum heima á bæjum.
Þegar við inntum Örn eftir því hvað væri hon-um minnistæðast úr ferðinni, taldi hann að erfitt væri að taka þar eitt atvik fram yfir annað. Öll var ferðin óslitið ævintýri að dómi hans og taldi hann engin ferðalög jafnast á við slíkar ferðir á hestum á Íslandi. Sífellt bæri eitthvað nýtt fyrir augu, jafnvel á þeim leiðum, sem eru mönnum gagnkunnugar áður. Samskipti manna og hesta á svo langri ferð veita hverjum þeim er slíkt kann að meta unað, sem endist um langan aldur. En þann þáttinn skilja hestamenn einir.
En Örn bætti því líka við að samfylgd Þorláks hefði verið þeim öllum og þá ekki hvað sízt yngstu mönnunum, þeim Pétri og Ólafi Hauki hollur skóli. Þar fór allt saman, reynsla í ferðalögum, árvekni og dugnaður.
Á þessum síðum og víðar í heftinu eru myndir úr þessu ferðalagi. Kann Hesturinn okkar Erni Johnson beztu þakkir fyrir að fá að birta þær.
E. G. E. S.