06/04/2024
Minigolfmót Icelandair VITA 5. Apríl.
Undanfarna vetur þá höfum við hjá Icelandair VITA sem og aðrir landar okkar átt margar gæðastundirnar á “Minigolfvellinum við Yumbo”. Minigolfvöllurinn sá á fáa sína líka enda hefur hann um árabil verið einn af vinsælustu samkomustöðum Íslendinga hér á Gran Canaria. Þar hittast menn seint og snemma, spila minigolf, ræða málin og næra sál og líkama. Það er oft sagt að enginn staður sé betri en það starfsfólk sem þar vinnur. Á minigolfvellinum vinnur frábært starfsfólk sem lætur sér annt um þá gesti sem þangað sækja, þau eru sífellt að stjana við okkur með bros á vör og alltaf boðin og búin til að gera allt sem þau geta til að gera okkur til hæfis og sjá til þess að öllum líði vel. Það er því ekki að furða þó fólk heimsæki minigolfvöllinn aftur og aftur sér til skemmtunar og ánægju.
Í gær héldum við síðasta minigolfmót Icelandair VITA þetta kjörtímabilið og að venju var feikna góð þátttaka. Þar mættust allir í góðu stuði og glaðir í lund, slógu vart feilhögg og skemmtu sér frábærlega. En þar sem þetta var síðasta minigolfmót vetrarins þá segjum bið bara.
Takk og takk öll sem hafa mætt og verið með okkur í vetur. Það er búið að vera feikna gaman saman svo ekki sé fastar að orði kveðið - og svo tökum við þráðinn upp aftur á haustdögum. Þannig er það nú bara.