28/11/2024
KÆRA
LEIÐSÖGUFÓLK
Í upphafi vetrar er gott að senda út stutt fréttabréf
og segja frá því sem hefur verið gert í félaginu okkar
Leiðsögn og eins hvað er í undirbúningi.
Eftir að ný stjórn tók við í vor fór mikið af tímanum í
að gera nýjan kjarasamning við okkar viðsemjendur,
sem krafðist mikils undirbúnings og endurskoðunar
á fyrri samningi, og síðan kjaraviðræður þar sem
reynt var að koma okkar áherslum til skila og
skilnings. En það var erfið sókn. Skrifað var undir
nýjan kjarasamning í byrjun júlí og fylgdi hann,
eins og við mátti búast, í öllum meginatriðum
þeim samningum og launahækkunum sem búið
var að gera við stærri stéttarfélög. Barátta okkar
stóð m.a. um tapa engu af því sem þegar var í fyrri
kjarasamningi. Því miður fékkst lítið nýtt inn í
þennan kjarasamning, eins og t.d. launaleiðrétting
til samræmis við ýmsar aðrar stéttir sem við lögðum
mikla áherslu á en ekki reyndist stuðningur fyrir í
þessari samningalotu. Nú er að hefjast samtal við
SA/SAF um margar þær bókanir sem gerðar voru
og eru tilgreindar í kjarasamningnum og verður
unnið áfram við þær á komandi mánuðum.
VERKTAKAVINNA
Við kjarasamningagerðina kom ýmislegt fram
sem veldur áhyggjum. Eitt sem þar ber að nefna
er verktaka leiðsögumanna. Augljóst er að þar
eru brotalamir og margt sem má betur fara. Því
er áformað að halda námskeið fyrir verktaka þar
sem farið verður yfir allt sem viðkemur umgjörð,
vinnuformi og launum vegna verktöku, svo sem
álagsgreiðslur, tryggingar, réttindi o.s.frv. Er
áætlað að þessi námskeið verið haldin í byrjun
janúar 2025 og verða fengnir leiðbeinendur til
námskeiðahaldsins sem hafa mikla kunnáttu í
þessum málum.
UMRÆÐA UM FRAMTÍÐ LEIÐSAGNAR
Mikil umræða hefur verið meðal félagsmanna
Leiðsagnar undanfarin ár og áratugi hvort
stéttarfélagið ráði við ýmis erfið verkefni, eins og
t.d. vinnustaðaeftirlit, launaþjófnað og önnur slík
mál sem brýnt er að tekið sé á af krafti. Hafa margir
nefnt að ef til vill væri Leiðsögn betur borgið innan
vébanda stærra og öflugra stéttarfélags sem gæti
tekið fyrrgreind mál að sér. Á liðnu ári var rætt við
forsvarsmenn nokkurra þeirra félaga sem komu til
greina. Meðal annars var rætt við BHM en svarið
var: „Nám leiðsögumanna er ekki háskólanám“.
Var það niðurstaða stjórnar að það stéttarfélag sem
hentaði flestum félagsmönnum væri VR, m.a. þegar
tekið er tillit til ólíkrar menntunar leiðsögumanna.
Var ákveðið að fá forsvarsmenn VR til að kynna
starfsemi sína, sjóði og almenn réttindi og skyldur á
sérstökum félagsfundi Leiðsagnar sem haldinn var
þann 2. apríl 2024. Tókst sá fundur mjög vel og ljóst
að það var vilji innan VR að taka Leiðsögn undir
sinn væng. Einnig mátti skynja á fundinum áhuga
félagsmanna Leiðsagnar.
SAMSTARF VIÐ VR
Þessi mál voru einnig rædd á aðalfundi Leiðsagnar
þann 4. apríl 2024 og var niðurstaðan sú að stjórn var
veitt umboð til að huga að framtíð stéttarfélagsins
Leiðsagnar innan vébanda VR. Nú þegar hafa átt
sér stað viðræður við VR þar sem rætt var hvernig
staðið yrði að slíkum samruna. Hafa ber í huga
að endanleg ákvörðun er ekki í höndum stjórnar
Leiðsagnar heldur eingöngu félagsmanna og verður
hún tekin fyrir á næsta aðalfundi árið 2025. Til
undirbúnings verður haldinn sérstakur félagsfundur
um þetta mál von bráðar þar sem kynnt verður hvað
fyrir liggur ef af samruna verður. Margar spurningar
vakna eðlilega í þessu máli. Hvernig á að móta þetta
félag innan VR? Hver eru helstu hagsmunamál
leiðsögumanna og hvernig er þeirra hagsmunum
best borgið? Hvað verður um faglega hlutann?
Þetta snýr einkum að menntamálum og því hversu
nauðsynlegt er að þetta starf sé leyfisskylt. Sú vinna
er hafin og verður henni haldið áfram í vetur. Þetta
verður kynnt betur fyrir félagsmönnum síðar í vetur
og kallað eftir hugmyndum frá þeim.
Samstarfið sem við hófum við VR í sumar hefur
reynst okkar félagsfólki gríðarlega vel nú þegar.
Skrifstofan hefur alveg færst yfir til VR sem svarar
öllum fyrirspurnum félagsmanna. (Starfsmaður
Leiðsagnar á skrifstofunni á Höfða hefur nýlega látið
af störfum, en símanúmer og netföng Leiðsagnar
eru þau sömu.) Það hefur orðið algjör viðsnúningur
á úrvinnslu kjarabrotamála, margir félagsmenn
hafa fengið lausn sinna mála og það er eftir því
tekið hversu fljót og örugg öll meðhöndlun er og
hversu mörg mál hafa verið leyst á farsælan hátt.
Fjöldi eldri mála fór með okkur yfir til VR. Hægt
var að leysa úr mörgum þeirra en sum voru fyrnd
og enn önnur þar sem fólk vildi sjálft ekki fylgja
þeim eftir. En bara kjarabrotaþátturinn sýnir okkur
hversu gott og nauðsynlegt það er fyrir Leiðsögn
að vera hluti af svona sterku stéttarfélagi þar sem
hægt er að taka á málum fljótt og örugglega með
öllum sérfræðingum VR. Það eitt og sér styður svo
sannarlega þá ákvörðun að leita eftir sameiningu
við VR.
En þá á eftir að ræða og taka ákvörðun um hinn
faglega hluta félagsins. Innan þess mætti hugsa sér
ólíka þætti leiðsögustarfsins, m.a. almenna leiðsögn,
gönguleiðsögn, ökuleiðsögn, jöklaleiðsögn
o.s.fr.v. Nauðsynlegt er í öllum þessum greinum
að hin faglega sýn sé tryggð og að til grundvallar
liggi menntun sem tryggir fagmennsku innan
stéttarinnar. Ákvörðun um hvernig þetta verður
gert verður í samráði við félagsmenn, kallað verður
eftir hugmyndum frá félagsmönnum um hvernig
þessu verði best háttað og unnið úr þeim. Við erum
þess fullviss að góð lending náist á þennan hátt.
Halldór Kolbeins,
formaður stjórnar Leiðsagnar
Reykjavík nóvember 2024